Select Page

Aðeins um sjálfan mig

Þriðjudaginn 20. júlí 1971 akkúrat svona um hádegisbil átti ég mitt fyrsta öskur á sjúkrahúsinu á Patreksfirði.  Ég taldi mig líka strax hafa yfir miklu að kvarta enda heldur ófrýnilegur á að líta, skakkmynntur, kjaftstór og lá önnur augnabrúnin niður við kinn en hin hátt upp við hársrætur.  Mér lá strax hátt rómur og fór sjaldnast milli mála hvar ég var niðurkominn í æsku nema auðvitað þegar ég var við það að gera eitthvað sem ég vissi að ég mátti ekki gera.   Á mínum uppvaxtarárum gekk ungdómurinn yfirleitt sjálfala og þurfti sjálfur að uppdikta alla sína afþreyingu sem ég skoraðist ekkert undan en afþreyingin var jafnoft skapandi og hún var afskapleg.  Það má jafnvel segja það með ólíkindum hversu mörg börn lifðu barnæskuna af því slík var uppfinningasemin að hún ætlaði oft mann lifandi að drepa (og ef ekki mann þá yfirleitt einhvern annan).

Ég byrjaði snemma að vinna erfiðisvinnu og lærði ýmsa aðra ósiði meðfram því bæði til sjós og lands en fann þó vissa flóttaleið frá örlögum mínum í skáldsögum sem ég las óspart.

Tuttugu og tveggja ára hætti ég til sjós í tuttugasta (en þó ekki í síðasta) sinn og innritaði mig í Söngskóla Reykjavíkur þar sem ég lærði til söngs hjá Magnúsi Jónssyni stórtenór.  Þar stoppaði ég stutt því frægðardraumarnir lögðu fyrir mig snörur fyrst í hlutverki sýklaforingja í söngleiknum Holdi eftir Guðmund bróður minn og svo sem söngvara í hljómsveitinni Stripshow.  Þar ók ég mér og skók framan í tónleikagesti í nokkur ár eða allt þar til tilvistarkreppan laust mig djúpri angist, að ég væri aðeins að túlka list en ekki að skapa hana (án þess að gera mér grein fyrir að flestir minna uppáhalds listamanna voru eimitt og eru túlkendur).

Ég reyndi fyrir mér sem handritshöfundur með misgóðum árangri (vann þó til verðlauna hjá Leikfélagi Akureyrar og fékk einhver verk flutt að auki) en uppgötvaði einhverstaðar í öllu þessu ferli að ég gæti fengið bestu útrás fyrir sköpunarþrá mína sem söngvaskáld.  Ég keypti minn fyrsta gítar komin á fertugsaldurinn og byrjaði að viða að mér bókum um laga og textagerð og við þetta er ég að eltast enn í dag.