Select Page

Með lánsfjöðrum stormfugla

Það sytrar

þú býður upp og þú dansar hálfan hring

hægri snú og allt komið er í kring

einn koss og hjartað svo fullt

það sytrar

í lífsins ferð þér finnst ekkert vera um of

þú fyllir upp ef það myndast eitthvert rof

í hlaðna tjörn því ást þín er vatn og

það sytrar

það drýpur, það dreitlar, það dropar, það seytlar, það sytrar

það drýpur, það dreitlar, það dropar, það seytlar, það sytrar

það er sem er og það fer eins og það fer

og framsýni er að reyna bera í lófa sér

vatn sem á milli fingranna

sytrar

menn veiða heimsljósið í sín höfuðföt

en hamingjan á alltaf út leið gegnum göt

þótt ást þú í tjörn þína ausir

það sytrar

það drýpur, það dreitlar, það dropar, það seytlar, það sytrar

það drýpur, það dreitlar, það dropar, það seytlar, það sytrar

vatn í gegnum hálendis garðana streymir sig dreymir

niður skriður í ós

ef vatn í gegnum mótstöðu sína ætlar það vætlar

úr þéttum klettum til sjós

það drýpur, það dreitlar, það dropar, það seytlar, það sytrar

það drýpur, það dreitlar, það dropar, það seytlar, það sytrar

í hring dansinum vanga vatn og sól

og vatnið gefur allt sem líf því fól

og sú gjöf sem það gefur mun því gefast

það sytrar

Tónar mínir tólf

í brjósti mínu strekktir þú hvern streng

svo stríðþanið varð brjóst á þínum dreng

og hvern tón ég átti til

ef þinn hljómur tók við yl

ég inn í þitt gaf allt mitt raddsvið og hljóðfæraspil

og ég alla tóna skalans til þín söng

í trillum og með stoppum stutt sem löng

með bæði bassakenndum róm

og björtum söng – hvern óm

allt var lagt í þinn takt og sem sagt inn í þinn hljóm

en það var ekkert nóg – ekkert gert rétt

ef ég setti einhvern þunga í slagið – þú vildir það létt

ekkert var nóg –  mín hljómhugsun röng

með tóna sem tala inní skala á allt öðrum söng

nú hef ég mátað alla tóna mína tólf

en trauðlega þeir raðast í þín hólf

rög og skepnan völsk

er rödd mín músíkölsk

því hve rétt sem í hljóm þinn hún beinist – þar greinist hún fölsk

Í stríði og ást

sorfin er hamingja úr hughorfin með vonarþrá og dug

það sem ein höndin gefur það grípur hin strax

griðlaus snýst þeytivinda hins hefðbundna dags

undrun að við hin sameinaða sál

í sundrun getum barist stál í stál

og ég lífs þíns engill, ás sem svaf þér við hlið

er orðin þessi manndjöfull sem þú skildir við

allt svikið – og orð í munn minn lagt

svo mikið sem ég hef bara aldrei sagt

en öll vopnin eru notuð – öll þau verstu sem fást

:því allt vont er leyfilegt í stríði og ást:

Hin krómatísku skref

allt traust – laust, annan kunningskap þú kaust

ég knörr minn dreg að rústum þess sem fyrr var okkar naust

allt fast – brast, þú tryggð og trúss við annan bast

enn týnast dagar inn í gráma sinn og enn ég örvinglast

en ég vek þrek, eitthvert vegatækið tek

og minn trega inn að bláum hömrum fjarðlægðinnar ek

allt gef sem hef, öll mín hundraðþúsund ef

uns harmurinn minn gengur niður sín krómatísku skref

allt kjurt á burt, um komu er ekki spurt

allt krydd er bragðdauft, allt safaríkt á tungu minni þurrt

allt bratt – flatt, allt líf í doða datt

nú dofnar heimsins litróf, urið glansi, þungt og matt

en ég vek þrek, eitthvert vegatækið tek

og minn trega inn að bláum hömrum fjarðlægðinnar ek

allt gef sem hef, öll mín hundraðþúsund ef

uns harmurinn minn gengur niður sín krómatísku skref

ég skorða á mig skapalón svifvængja

ég skreyti mig lánsfjöðrum stormfuglanna

og skauta á stafhruni skýja –

ég skauta á stafhruni skýja og inn í hliðarvídd …

…ég vek þrek, eitthvert vegatækið tek

og minn trega inn að bláum hömrum fjarðlægðinnar ek

allt gef sem hef, öll mín hundraðþúsund ef

uns harmurinn minn gengur niður sín krómatísku skref

Já, nei nei nei

já – nei, nei nei – ég hangi enn í hérlífinu

já – nei, nei nei – en helst á floti lífs míns fley

já – nei, nei nei – ég held áfram að mæta í vinnu

og fljótlega verð ég ókei –  en einmitt núna

já – nei, nei nei

ég stari á sokk þinn einstakan

því mér finnst ég stundum vera hann

og hvers virði er einn sokkur ef það er ekkert par?

og gangurinn.  Hver grefillinn

húfa, gloss og trefillinn

allt hrópar upp nafn þitt og fær ekkert svar

já – nei, nei nei…

fékk alla skynmöskvana í skrúfuna

var skilinn eftir hér með húfuna

og við höfuðlaus bæði þjökuð og pínd

er ég reyni að flokka einn firrtan sokk

finn þá stakan eyrnalokk

sem þá loks er fundinn –

en þá ert þú týnd

já – nei, nei nei

Með gegnumtrekk í sálinni

hér bergmála öll herbergin mín tóm

því ég hef ekki bitið enn úr nálinni

þögn sem þó er full af enduróm

og undarlegum gegnumtrekk í sálinni

vonin stormar um og hefur hátt

heitfeng eins og útsynningsins kraftur

ég opnaði minn glugga upp á gátt

og get nú ekki lokað honum aftur

hér bergmála öll herbergin mín tóm…

 

Í vonarinnar klifurgrind

inn í heljar sút set þræðina út

og síðustu hálmstráum draumsins flétta í kvíðahnút

ég mannkind, hvílík hryggðarmynd

í sjálfheldu í vonarinnar klifurgrind

ég litagreini drungann, dimm móðan sýnir margt

uns myrkrið er svo bikasvart að það sést vart

og enn stari inn í sortann því bið er gild og góð

uns grýlukerti hanga þar sem sultardropinn stóð

ég litagreini drungann, dimm móðan sýnir margt…

og botnfallinn beiskan skilninginn

af bikar mínum dreypi uns fæ reikninginn

 

Um veiruna ást

ég flý fer í sóttkví

ég flý fer í sóttkví

aldrei falla mun á ný

fyrir veirunni ást

ég sver við allt sem heilagt hér er

beint ekki af bakinu dottinn

hef svo búið um pottinn

nú mun ég ná mér af þér

í haf kem hér öllu í kaf

og drekki sorg minni í svefni

með sótthreinsiefni

sem nú mun hafa nóg af

ég flý fer í sóttkví

hast ég skelli hurðinni fast

og slæ fyrir slagbrandi

slíðra hausinn í sandi

og kenndum klastra inní plast

trist ég tefli vonunum yst

hurðarfalsið ég fylli

með flíspeysu á milli

og treð svo tvist í hvern kvist

ég flý fer í sóttkví

já nei, nei, nei aldrei fyrir ást

fyrir ást

aldrei falla mun á ný fyrir veirunni

 

Sólstafir

harmurinn hefur lætt sér inn í enn eitt saklaust ljóðið þennan dag

nú læsir sínum klóm í orðin uns blekið rennur aðeins fyrir hann

aðþrengdur af himinsþunga sit ég einn og bíð eftir sólstöfunum

sem sindra einhverstaðar því bak við stálgrá skýin öskrar ljós

hugsun kom og kæfði fjör úr öllum hlátri er þú fórst

bergmálinu förlast, nú svarar engu ópi sem því berst

en gleðin býr í döpru hjarta og sigurviss ég bíð eftir sólstöfunum

sem sindra einhversstaðar því þá fyrst heyrast hjartslögin úr þögn

en gleðin býr í döpru hjarta og sigurviss ég bíð eftir sólstöfunum

sem sindra einhversstaðar því þá fyrst heyrast hjartslögin úr þögn

 

Ég hef treyst

á sum lífsskeið syrtir, samt mun þrautargangan þreyð

uns birtir upp með þurrk og yl og ég þulu þyl sjálfs míns til að ef ég vil þá ég skil að

er regnið súrnar sárast “allar skúrir klárast”

og mun finna leið til að fyrirgefa það sem sárast sveið

til að yfirgefa sorgina sem liggur enn á ný á og í líkt og ský sem hefur kiknað undan

drunga nú viknar undan þunga sem á það leggst

þó langt að baki sé sá vegur sem þú gekkst

þá íþyngjandi fortíð eftir dregst

og hvert sem maður æpandi burt flýr í því húsasundi lífsóttinn þinn býr

og þó ég harmi nú hið undangengna sárt held ég samt, nei ég veit það alveg klárt

þó oní svart malbikið allt sé svikið, þó svíði sárt hvert augnablikið

þá má allt hrynja sem í heimi ég get reist

allt heldur en ég geti ekki treyst

ég mun fyrirgefa það sem sárast sveið

og ég mun yfirgefa sorgina sem liggur enn á ný á og í líkt og ský sem hefur kiknað undan drunga nú viknar undan þunga sem á það leggst

þó langt að baki sé sá vegur sem þú gekkst

samt íþyngjandi fortíð eftir dregst

og hvert sem maður æpandi burt flýr í því húsasundi lífsóttinn þinn býr

og þó ég harmi nú hið undangengna sárt held ég samt, nei ég veit það alveg klárt

þó oní svart malbikið allt sé svikið, þó svíði sárt hvert augnablikið

þá má allt hrynja sem í heimi ég get reist

allt heldur en ég geti ekki treyst

þó loforð séu svikin grimmt og geist

þá gefur það mér ljós ég hef treyst

ég hef treyst

 

Í svartann lopa myrkursins

hér út við bænahöll mína

í bakgarðinn ég gref

og í beðið sái fræi

smárra vona sem ég hef

úr draumóranna gyllta þráð

vef vaðmál er ég sef

og ég sníð mér betri fortíð

mér betri skilning og fyrirgef

eins og eggjaskurn í vatnslásinum, skömmin situr föst í mínum anda

skuld í eigin bölvi vex sem púkinn upp á fjósbitanum nú

reiðin hún er iljum mínum eggjagrjót mörg spjót á móti standa

erfitt mun að reisa upp úr hyldýpinu göngufæra brú

til þess þarf þónokkra trú

en inn í svartan lopa myrkursins

ég ljósþráðunum vef

og ég sníð mér betri fortíð

mér betri skilning og fyrirgef

 

það ber að þakka það

beygður og átt bara engan dug

og ennþá minni baráttuhug

inn í svartholsspíral sogast þú

og því við sambandshnúta togast nú

með heim á herðum rogast  – þá þyldu í vanda

ef nærð að anda…

…hve heppin ert, hve merkt, hve sterkt

hafðu eyrun sperrt, hve það er vel gert

því það er nú svert þakkarvert – bara öll prósentin eitthundrað

hve happadrýgt, hve gæfuríkt

af hamingju vígt og bara engu líkt 

hve klikkað sýkt, hvað það er nú ýkt að eiga einhvern að

það ber að þakka það

er tíminn hefur þokast í þurrð

og lífsþrá mokað ofaní skurð

er lens þú gengur gáttaður

og gerist illa áttaður

og allri vonarsátt í burt þú bendir

er slíkt hendir…

…hve heppin ert, hve merkt, hve sterkt

hafðu eyrun sperrt, hve það er vel gert

því það er nú svert þakkarvert – bara öll prósentin eitthundrað

hve happadrýgt, hve gæfuríkt

af hamingju vígt og bara engu líkt 

hve klikkað sýkt, hvað það er nú ýkt að eiga einhvern að

það ber að þakka það

það ber að þakka það

Tónlistarmenn:

Valdimar Olgeirsson (Kontrabassi) Tómas Jónsson (Píanó) Magnús Örn Magnússon (Trommur) Hallgrímur Oddsson (Söngur) 

Upptökustjórn: Halldór Gunnar Pálsson

Tæknimenn: Halldór Gunnar Pálsson og  Kristinn Sturluson

Hljóðjöfnun og hljóðblöndun: Halldór Gunnar Pálsson 

Hönnun albúms: Axel F Friðriks 

Prófarkalestur: Guðmundur Kr Oddsson 

Lög og textar: Hallgrímur Oddsson

 

Upptökur fóru fram í Stúdíó Sýrlandi september 2022

 

Þakkir: Kristófer Ìsak Hölluson, Víkingur Viðarsson, Jóhannes Kr Kristjánsson, Guðmundur Kr Oddsson, Mamma og Pabbi