Select Page

Einfaldlega flókið

360 gráður

Var þjáður þreyttur áður
Eftir þrjúhundruð og sextíu gráður
Og ég fer á eftir mér í hring

Verð að hlaupa hraðar
Svo ég hafni einhversstaðar
Með hlaupasting ég hleyp í kring og syng

Næ ekki í neitt sem ég vil
Nenni ekki því sem er til
Í endann kannski upphafið ég skil

Næ ekki í neitt sem ég vil
Nenni ekki því sem er til
Í endann kannski upphafið ég skil

Þó heilum helming slepptir
Hálf leið alltaf eftir
Samt næ ég mér ef hraðar fer í hring

Í andnauð elti núið
En núið það er búið
Með hlaupasting ég hleyp í kring og syng

Næ ekki í neitt sem ég vil
Nenni ekki því sem er til
Í endann kannski upphafið ég skil

Næ ekki í neitt sem ég vil
Nenni ekki því sem er til
Í endann kannski upphafið ég skil

Verðgjörn sál

Ég er verðgjörn sál, á mín vandamál
Vil það helst sem fágætt telst
Hið fegursta ég klófesta víst varð
Vildi úr draumum mínum reisa edengarð
En úr helvíti var himnaríki ei reist
Og hugsjón gat í framkvæmdinni breyst

Mörgu leita að og mér leiðist það
Lítið fæ og kasta á glæ
Ef ég hef það þá ég gef það, það ég get
Gnótt í mínum höndum lítils met
Ég vil eignast það sem enginn fremri fær
Og fleygja því burt strax sem náði í gær

Stundum fer ég flatt, hugsa kannski of hratt
Horfi strax til næsta dags
Ef hrökkva eða stökkva verð, ég vel
vitlausari kostinn að ég tel
Er samt voðalega vitur eftir á
Ég veit svo margt en einmitt bara þá

Æðri máttur

Mistökin geri ég grimmt meðal kvenna
Og gremst það að flest er mér sjálfum að kenna
Þar greinir á milli okkar manna og apa
Mannskepnan kann sín vandræði að skapa

Bilast allt vit er birtist mér kona
Bablandi tafsa og stama og svona
Fallega konan er ferlega erfið
Fer illa með miðtaugakerfið

Bregð mér í brátt
Bregð mér í brátt
Í bænahús, verð fús, þar dús við æðri mátt

Hún fjötrar mig stöðugt með fjölkynngi sinni
Og flögrar svo burt með sálinni minni
Hún flétta kann reipi úr sæ og úr sandi
Það sest ekki neinn ef hún vill hann standi

Bregð mér í brátt
Bregð mér í brátt
Í bænahús, verð fús, þar dús við æðri mátt

Freistingar stenst ég án verulegs voða
Og varla fell – nem´það standi til boða
Tilgangur míns lífs er tilvistarkreppa
Er toppnum er náð, að engu er að keppa

Bregð mér í brátt
Bregð mér í brátt
Í bænahús, verð fús, þar dús við æðri mátt

Hafðu mig hjá

Hafðu mig hjá – er roðinn úr rósinni dvín
Hafðu mig hjá – er vælandi vindurinn hvín
Hafðu mig hjá – er vetur skreytir veröld hvítum snjá
Vertu mér hjá – svo yl minn hafirðu þá

Hafðu mig hjá – er lóan með ljósinu fer
Hafðu mig hjá – er lengjast fer skugginn á þér
Hafðu mig hjá – er vetur skreytir veröld hvítum snjá
Vertu mér hjá – svo yl minn hafirðu þá

Nú vetur er og veröld kólna fer
Þér verður kalt en þá þú skalt

Hafa mig hjá – er kvarnast úr mánanum mjöll
Hafa mig hjá – er djúpsævið fýkur á fjöll
Hafðu mig hjá – er vetur skreytir veröld hvítum snjá
Vertu mér hjá – svo yl minn hafirðu þá

Barið á dyrnar

Á dyrnar dettur hrammurinn
Drynur mikið lag
Og taktföst er sú tónlistin
Trommað létt hvert slag
Það breytist allt við barninginn í dag

Að opna stýrir ólukku
Í edengarðinn minn
En heimalingur heima er
Hún veit það andskotinn
Hún veit svo vel að ég er umsetinn

Heyri hún andar
Hugsunin strandar
Þótt skilji að skelfing og þilið
Kemst skrattinn í spilið

Hjartað berst og heilinn ferst
Nú horfið er allt vit
Það hefur gerst sem veit ég verst
Veit, mér bregður lit
Ég finn þann brest er brenglast öll mín hnit

Heyri hún andar
Hugsunin strandar
Þótt skilji að skelfing og þilið
Kemst skrattinn í spilið

 

Skrítið

Skrítið – lognið líður hratt
Líkt það flýti sér
Vill það líka vera statt
Í varinu hjá þér?

Eitthvað virðist veröldin
vera ólík sér
fljúga hvítu fiðrildin
á fullu inn í mér

Af eilífð bara um andrá bið
brot úr tímans sjó
stund mín fögur stattu við
stundarkorn er nóg

Eitthvað skrítið inn í mér
indæl tilfinning
ærð af lífi leikur sér
hin ljúfa vitfirring

Skrítið – skrítið, skrítið.
Furðulegt

 

Glitský

Ég byggi þér höll, upp af fönn úr fótsporum þínum
Festi allt saman með björtustu vonunum mínum
Sjóndeildarhringnum ég flétta um fingur sem trafi
Með fimm milljón stjörnum og hrímköldu heimskauta rafi

Úr glitskýjum vefinn vinn
Veröld úr draumum spinn
Uns frostrósaheimur rís
Riðinn úr ís

Úr röstum af sólstöfum reisi þér stuðlabergs landið
Með roðagull sólarlags, kannski ögn upprisu blandið
Svo þurreys ég hafið frá gullhömrum glæstum og björtum
Með ígreyptum kvöldsólum tíndum af nátthimni svörtum

Úr glitskýjum vefinn vinn
Veröld úr draumum spinn
Uns frostrósaheimur rís
Riðinn úr ís

Úr mjöllinni þæfi ég þoku og stjörnur inn dreg
svo þúsundir sólkerfa lýsi eilíft þinn veg
En frosthýalínið það fælist þinn yl

Úr glitskýjum vefinn vinn
Veröld úr draumum spinn
Uns frostrósaheimur rís
Riðinn úr ís

Í feluleik

Er þetta það ó, eða hvað
Ætlar mér veröldin fleira?
Með gjöfum míns lífs læðist oft að
Löngun í meira og meira

Aldrei mun sýna mitt eðli í raun
Efast þú mundir mig skilja
Heiti þér fögru en hugsa á laun
Um hitt sem mér finnst best að dylja

Í feluleik fjarlægur er
Í firru að leita að mér
Því er ver

Í ástum og stríði mun allt saman leyft
Allt býr í nýjabrums fleti
Öfundin, hrokinn, ágirndin, heift,
Holdnautnir, munúð og leti

Þungi alls heimsins á herðum á mér
Hreinlega kikna undan byrði
En þessi byrði, þó kannski er
þyngdar sinnar virði

Í feluleik fjarlægur er
Í firru að leita að mér
Því er ver

Því er ver
Því er ver.
En hver sem það vill sjá það sér
Allt fer sem fer

Það hefst ekki að halda þér

Ég stari á þig, stara á mig
Strax mun hið forkveðna sanna sig
Með tímanum týnist
Sem tryggilegt sýnist á burt

Þú líður hjá og líður frá mér
Logandi af alheimsins ástarþrá
Þó veit þú ferð
Og þá ég verð sár

Það hefst ekki að halda þér kyrri
Ég hörfa strax og verð þá fyrri til

Kom í nótt en kom of fljótt
Kolniðamyrkur og orðahljótt
Veit er þú þegir
Hvað þögnin segir, ég veit

Þó allt sé létt, mín staða, stétt
Öll stærðfræðigullsniðin nokkuð rétt
Þá eldist það af mér
Aldurinn fer mér verr og verr

Það hefst ekki að halda þér kyrri
Ég hörfa strax og verð þá fyrri til

Gremst hvað þú ert glæsileg. Finn greinarvísitöluna hrapa niður í þrjá. Sem lamb er ég lít þig
á. Leitt að hérna… …já

Það hefst ekki að halda þér kyrri

Einn dropi í haf

Er þetta það ó, eða hvað
Ætlar mér veröldin fleira?
Með gjöfum míns lífs læðist oft að
Löngun í meira og meira

Aldrei mun sýna mitt eðli í raun
Efast þú mundir mig skilja
Heiti þér fögru en hugsa á laun
Um hitt sem mér finnst best að dylja

Í feluleik fjarlægur er
Í firru að leita að mér
Því er ver

Í ástum og stríði mun allt saman leyft
Allt býr í nýjabrums fleti
Öfundin, hrokinn, ágirndin, heift,
Holdnautnir, munúð og leti

Þungi alls heimsins á herðum á mér
Hreinlega kikna undan byrði
En þessi byrði, þó kannski er
þyngdar sinnar virði

Í feluleik fjarlægur er
Í firru að leita að mér
Því er ver

Því er ver
Því er ver.
En hver sem það vill sjá það sér
Allt fer sem fer

Tunglið

Í leiða lít út um gluggann
á ljósakeilur sem æða mér hjá
sit og glápi út um gluggann
góni á það sem er ekki að sjá
Svo fátt sem finnst hér við gluggann
fugl sem birtist en hverfur svo frá
stend upp og stari út um gluggann
á staurinn sem fuglinn sest á

Tunglið – töltir hálfhring um gluggann
Tunglið – er eins og ég á sinn hátt
Tunglið – kastar birtu inn í skuggann
Tunglið – snýst í aðra átt

Snjókorn klínist á gluggann
kalið tár sem starir mig á
þrýsti gómum á gluggann
gef því yl sem streymir mér frá
Ljósin lýsa upp gluggann
logar sál af fortíðar þrá
en sorgin skríður í skuggann
skelfist ljós ef lýsir sig á

Tunglið – töltir hálfhring um gluggann..

Lukkan um heiminn með hverflyndi fer
því hringveginn réttsælis tunglvegur er
horfi á tunglið og sorgmæddur syng
samferða jörðinni í öfugan hring

Tunglið – töltir hálfhring um gluggann..

Sókrates

Fyrst er allt svo fer allt svo hverfult í hring
Með hrynjanda swing við dönsum í kring
Fyrst lygnir svo rignir, bjart nú á ný
Næst birtist ský svo rignir úr því

Er Sókrates fékk loks að sannleika leitt
Sagði hann beinskeytt
Með vissu veit eitt. Að ég veit ekki neitt

Að falla má kalla að fljúga ekki rétt?
Frjáls svíf ég létt, laus niðr´á stétt
Glóð rennur, heitt brennur haffleti í
En hún rís á ný, það er hefð fyrir því

Er Sókrates fékk loks að sannleika leitt
Sagði hann beinskeytt
Með vissu veit eitt. Að ég veit ekki neitt
Kannski spurning um skilning?
Skoðaðu heimspeki Kínverja jangið og jing
Er jafnvægi í hring?

Er Sókrates fékk loks að sannleika leitt
Sagði hann beinskeytt
Með vissu veit eitt. Að ég veit ekki neitt

Mér brestur allt vestur séð austan frá sól
Sunnan við pól snýst miðjarðar hjól

Persónur og leikendur

Guitar: Halldór Gunnar Pálsson
Trommur: Önundur Pálsson
Bassi: Valdimar Olgeirsson
Orgel og básúna: Leifur Jónsson
Fiðla: Unnur Birna Björnsdóttir
Söngur: Hallgrímur Oddsson
Wurlitzer og orgel í „Tunglið“: Tómas Jónsson
Bakraddir í „Tunglið“: Halldór Gunnar Pálsson, Leifur Jónsson og Hallgrímur Oddsson

Upptökur fóru fram hjá Önna í Tankanum, Halldóri bróður hans í Hljóðver.is og hjá Halldóri og Bjössa í Fídbakka, á Eiríksgötu og í Kópavogi.

Upptökum stjórnuðu Halldór Gunnar Pálsson, Önundur Pálsson og Björn Heiðar Jónsson. Hljóðblandað af Öndundi Pálssyni.

Útsett af Halldóri Gunnari Pálssyni

Tónlist og textar: Hallgrímur Oddsson

Ljósmyndun: Ólöf Erla Einarsdóttir

Hönnun og umbrot: Ólöf Erla Einarsdóttir

Prófarkalestur: Óskar Guðmundsson

Allt mitt á ég öðrum að þakka

Mamma, pabbi, Jói, Víkingur, Halldór Gunnar, Jónas, Björvinn og Fríða, Önni, Leibbi Djass, Valdi, Unnur Birna, Tommi, Kristó, Pétur Hjalt, Guðmundur, Óskar frændi, Logi og Billa, Maggi Einars, Fjallabræður, Erlingur, Einar, Benni Palli, Óli, Helgi, Óskar, Kolbeinn, Ingimar, Auðna, Dagbjört, Siggi, Sigrún og ekki síst allir þeir sem ég gleymi að nefna. Án ykkar væri enginn saga að segja. Takk.

Sérstakar þakkir: Björn Heiðar Jónsson