Select Page

Djákninn (ástarsögusöngleikur) 
Ljósbrotin við Myrká

Djákninn á Myrká er gömul saga sem læst hefur sér í hlustir landsmanna um aldir. Við höfum flest öll fundið til hluttekningar með Guðrúnu og séð því djáknann sem heldur draugalegan durt. Í þessu verki leyfi ég mér að snúa öllu á hvolf og skoða hvort skúrkurinn telji sig ekki hafa einhvern göfugan tilgang eins og flestir skúrkar heimsins?  Og er þá hryðjuverkamaður nasistans kannski frelsishetja frakka?

Ég leyfi því djáknanum að koma sínu sjónarhorni að með söng og slaghörpuslætti án þess þó að breyta einum staf í þjóðsögunni.

Lög og textar © Hallgrímur Oddsson

Djákninn (ástarsögusöngleikur)

Hér er hægt að hlusta á verkið allt.

Ljósbrotin við Myrká

Hér eru lögin úr verkinu.

Rokgjörn er veröld manns

hver bautasteinn er byggður líkur
Babelsturni jörðu frá
en efnið molnar – efnið fýkur
þín ummerki mun tíminn má

rokgjörn
rokgjörn
er veröld manns

öll þín munu lífsbönd bresta
þótt bindir fast á allan hátt
síkvik fýkur sannleiksfesta
suður undan norðanátt

rokgjörn – er gleði manns

þinn heimur er úr grjóti gerður
að grunnefni – en jörð er kvik
þyrlar ryki en veist þú verður
að viðskilnaði aftur ryk

rokgjörn – er gleði manns
rokgjörn – er veröld manns

Í fyrri daga var djákni einn að Myrká í Eyjafirði; ekki er þess getið, hvað hann hét. Hann var í þingum við konu, sem Guðrún hét; hún átti að sumra sögn heima á Bægisá, hinum megin Hörgár, og var hún þjónustustúlka prestsins þar. Djákninn átti hest gráföxóttan, og reið hann honum jafnan; þann hest kallaði hann Faxa.   Einhverju sinni bar svo til litlu fyrir jól, að djákninn fór til Bægisár til að bjóða Guðrúnu til jólagleði að Myrká og hét henni að vitja hennar í ákveðinn tíma og fylgja henni til gleðinnar aðfangadagskvöld jóla.

Fólk heldur sumt að ástin sé

fólk heldur sumt að ástin sé
sæluvalhopp í kringum tré
með ofurlitlum fiðring nið´rí hné
en ást er hroði, harmafregn
og hjartastórum oft um megn
ást er elding, þruma og asaregn

dúr mollþríundar slunginn – þrunginn sorg og sút
sálarangist, drungi og leiðin út

mig grípur þörfin gríðarsterk
að gera tvö, þrjú kraftaverk
því bros þitt herðir tök um mína kverk
mín ást er brim sem ber á strönd
brennheitt hraun í jökulrönd
og afli slíku halda engin bönd

þó þvingi alheimskraftur þig mínu fangi frá
þig finna mun ég aftur og aftur til þín ná

fólk heldur sumt að ástin sé
sæluvalhopp í kringum tré
með ofurlitlum fiðring nið´rí hné

Dagana áður en djákninn fór að bjóða Guðrúnu, hafði gjört snjóa mikla og ísalög; en þann sama dag sem hann reið til Bægisár, kom asahláka og leysing, og þegar á leið daginn, varð áin ófær fyrir jakaferðum og vatnagangi, á meðan djákninn tafði á Bægisá. Þegar hann fór þaðan, hugði hann ekki að því, sem skipast hafði um daginn, og ætlaði, að áin mundi enn liggja sem fyrr.

Loftgestur

nú gustar loft, gestur
af hvelunum hvesstur
nú hvín allt suðvestur
og þungt er hann sestur

það gnístir, það gnestur
það brakar og brestur
líkt bregðist lífsfestur
er ofsinn gnýr mestur

Hann komst yfir Yxnadalsá á brú; en þegar hann kom til Hörgár, hafði hún rutt sig. Hann ríður því fram með henni, uns hann kemur fram á móts við Saurbæ, næsta bæ fyrir utan Myrká; þar var brú á ánni.  Djákninn ríður á brúna, en þegar hann er kominn á hana miðja, brestur hún niður,  en hann fór í ána.

Tonn sem hefur misst hvert kílógramm

næturfrostið feigðarlitum laust
lítið gras hvers dómsvaldur er haust
svo harmþungt þegar heilbrigð fögur jurt
er hrifsuð án alls fyrirvara burt

nú veröldin er öll á fleygiferð
sem fis er öll manns áætlunargerð
og allur tíminn sem í tómið líður fram
eins og tonn sem hefur misst hvert kílógramm

nú myrkir möskvar veið´allt ljós
og móðan litar hvítan ós
jörðin skelfur, skríður bjarg
á skrokkinn leggst hið þunga farg

og veröldin er öll á fleygiferð
sem fis er öll manns áætlunargerð
og allur tíminn sem í tómið líður fram
eins og tonn sem hefur misst hvert kílógramm

og tíminn inn í tómið líður fram
tonn sem hefur misst hvert kílógramm

Morguninn eftir, þegar bóndinn á Þúfnavöllum reis úr rekkju, sér hann hest með reiðtygjum fyrir neðan túnið og þykist þekkja þar Faxa djáknans á Myrká. Honum verður bilt við þetta, því hann hafði séð til ferða djáknans ofan hjá daginn áður, en ekki orðið var við, að hann færi til baka, og grunaði því brátt, hvað vera mundi. Hann gengur því ofan fyrir túnið; var þá sem honum sýndist, að þar var Faxi, allur votur og illa til reika. Gengur hann síðan ofan að ánni, ofan á svo kallað Þúfnavallanes; þar finnur hann djáknann rekinn örendan á nesinu framanverðu.

Eitt tækifæri enn

þú ljós, þú lækning mild
þú leiðin mín og fylgd
þú sem fullnar fjöll
og fletur þau að vild
í auðmýkt smið ég smeykur bið
um smáræði, sjálft alvaldið
– tala ekki um tvenn né þrenn
bara eitt tækifæri enn

þú afl sem undrin knýr
þú innsta kjarna gnýr
undanfari alls
eilíflega nýr
ég krýp, ég skríð – mín bæn er blíð
hef beðið þessa alla tíð
í heitri bæn ég brenn
ég bið – eitt tækifæri enn

– tala ekki um tvenn né þrenn
bara eitt tækifæri enn

Fer bóndi þegar til Myrkár og segir tíðindin. Djákninn var mjög skaddaður á höfðinu aftanverðu af ísjaka, er hann fannst. Var hann svo fluttur heim til Myrkár og grafinn í vikunni fyrir jólin.

Við dauðans dyr

margtóna æðir bylurinn á bæjarvegg
nú brestur innsti rafturinn í söng
draugaslög sín trommar regn á risgluggann
og rokið gnauðar blísturtóna með

við dauðans dyr
með dýrð innan við þil
við dauðans dyr
dynheimshliðsins til – þín

ofsinn öskrar með bassahvin úr hvilftunum
hvikull slær sinn drungalega takt
sem elding þruma hnúunum á hurðarbak
af heljarþröm er fastast knúið á …

…dauðans dyr
með dýrð innan við þil
dauðans dyr
dynheimshliðsins til – þín

og ég lem mín heljar högg
trúarhamrabeltin ég lem í fína urð
uns jarðarmassinn missir eigin burð
uns mér opnast þessi hurð

Frá því að djákninn fór frá Bægisá og til þess á aðfangadaginn, hafði engin fregn farið milli Myrkár og Bægisár um þessa atburði neina sökum leysinga og vatnagangs. En á aðfangadaginn var veður stilltara, og hafði runnið úr ánni um nóttina, svo að Guðrún hugði gott til jólagleðinnar á Myrká. Þegar leið á daginn, fór hún að búa sig, og þegar hún var vel á veg komin með það, heyrði hún, að það var barið;

Drepið á dyr

er alheimskraftar lágu í minni stjórnarhendi styrkri
þá stormana ég þræddi uppá lítið lognblátt hjól
himingeiminn dró ég upp úr sálar minnar myrkri
úr mýrarljósi blés ég eld í hvíta draugasól
– hef skrautbúið boð um jól

af dökkum hlíðarvanga ljósu vonartárin drupu
það er víst að engin skrokkur hefur sest jafn þétt í hnakk
lífskuggarnir ljósfælnir með skýjareki hlupu
hver skeifuneisti Faxa eins og öflug elding sprakk
– í örmum þér enda allt flakk

nú drepur á dyr þinn Djákni og spyr
um efndir sem aldrei fyrr

mig stöðvar engin heljarbrú né hyldýpi af sorta
því hjarta mitt af reimleika slær endalaust til þín
þú hefur blásið lífi í allt sem lífið kunni að skorta
og liðinn er ég fjörugri en á iði ástin mín
– hér upphafið eilíft gín

nú drepur á dyr þinn Djákni og spyr
um efndir sem aldrei fyrr

eins og ljóskeila leitar í sorta
með langnættis sundrandi hníf
ég náttmyrkrið klýf
og þunghlaðið rökkrið af ryki
ég ríf innst í ljósleysið þríf
ég náttmyrkrið klýf

fór þá önnur kona til dyra, sem hjá henni var, en sá engan úti, enda var hvorki bjart úti né myrkt, því tungl óð í skýjum og dró ýmist frá eða fyrir. Þegar stúlka þessi kom inn aftur og kvaðst ekki hafa séð neitt, sagði Guðrún: “Til mín mun leikurinn gjörður, og skal ég að vísu út ganga.”
Var hún þá albúin, nema að hún átti eftir að fara í hempuna. Tók hún þá til hempunnar og fór í aðra ermina, en fleygði hinni erminni fram yfir öxlina og hélt svo í hana. Þegar hún kom út, sá hún Faxa standa fyrir dyrum og mann hjá, er hún ætlaði, að væri djákninn. Ekki er þess getið, að þau hafi átt orðræðu saman. Hann tók Guðrúnu og setti á bak og settist síðan sjálfur á bak fyrir framan hana. Riðu þau þá svo um hríð, að þau töluðust ekki við.

600.000 orð

öll mín skilningarvit af firn eru full
fönguð af áru sem glóir líkt gull
eins og sólglit í tjörn svo titrar mín önd
er um tauminn minn grípur þín hönd

með alvissu veit þá sæld ég hef hneppt
með hamingju í greip og ég get ekki sleppt
í einsemdar biki loks birtir til
og blákaldur elti þinn yl

þú lögmál – minn vilji er tapað tafl
er togar öll mín bein þitt þyngdarafl
minn fasti, farljós ertu mér
ég fylgi þér sem skugginn hvert sem er

sexhundruð þúsund orð og ég segi ekki neitt
sexhundruð þúsund orð og ég á ekki eitt
sexhundruð þúsund orð og þrjátíu um snjó –
en um þig eru engin orð nóg

þú lögmál – minn vilji er tapað tafl
er togar öll mín bein þitt þyngdarafl
minn fasti, farljós ertu mér
ég fylgi þér sem skugginn hvert sem er

Nú komu þau til Hörgár, og voru að henni skarir háar, en þegar hesturinn steyptist fram af skörinni, lyftist upp hattur djáknans að aftanverðu, og sá Guðrún þá í höfuðkúpuna bera. Í þeirri svipan rak skýin frá tunglinu; þá mælti hann:

“Máninn líður,
dauðinn ríður;
sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum,
Garún, Garún?”

En henni varð bilt við og þagði. En aðrir segja, að Guðrún hafi lyft upp hatti hans að aftan og séð í hvíta kúpuna; hafi hún þá átt að segja:
“Sé ég það, sem er.”

Út fyrir gröf og dauða

von er daggardropi
sem drýpur niður í jörð
í von mun hinn græni galdur
græða upp moldarsvörð

von er vitið djúpa
vætan nauðsynleg
svo grefur vonin væna
hinn víða árfarveg

þó afbyggist efni
og inní sig stefni
þó eilífðir endi
og andhverfis lendi
út fyrir gröf og dauða ég skríð til þín

von er vatn sem drýpur
vætlar inn og frýs
það er von sem spennir sprungur
sem splundrar fjöll er hún rís

þó afbyggist efni
og inní sig stefni
þó eilífðir endi
og andhverfis lendi
út fyrir gröf og dauða ég skríð til þín

 

Ekki er sagt af samræðum þeirra fleirum né ferðum, fyrr en þau koma heim að Myrká, og fóru þau þar af baki fyrir framan sáluhliðið; segir hann þá við Guðrúnu:

“Bíddu hérna, Garún, Garún,
meðan eg flyt hann Faxa, Faxa,
upp fyrir garða, garða.”

Að því mæltu fór hann með hestinn; en henni varð litið inn í kirkjugarðinn. Sá hún þar opna gröf og varð mjög hrædd, en tekur þó það til bragðs, að hún grípur í klukkustrenginn. Í því er gripið aftan í hana, og varð henni þá það að happi, að hún hafði ekki fengið tíma til að fara nema í aðra hempuermina, því svo var sterklega til þrifið, að hempan gekk sundur um axlarsauminn á þeirri erminni, er hún var komin í. En það sá hún síðast til ferða djáknans, að hann steyptist með hempuslitrið, er hann hélt á, ofan í gröfina opnu, og sópaðist moldin frá báðum hliðum ofan yfir hann.

Glóð

glóð- ég finn nú ylurinn fer
úr glóð – ég finn nú ylurinn fer
hér fyrr brann eldur – askan á veggjunum enn er

ljúft var allt þitt hljóða hjal
heit ákefð þín og upptrekkt tal
en um aldingarð þinn feigðin fer
og nú frostskemmd öll þín ber

nú safinn geymir biturt bragð
líkt bryðji maður ullarlagð
og koss sem sætur var sem vín
í vafans beiskju dvín

glóð- ég finn nú ylurinn fer
úr glóð – ég finn nú ylurinn fer
hér fyrr brann eldur – askan á veggjunum enn er

ég gekk aftur til þín, óð á skeið
ég ávallt var á þinni leið
nú finn ég frá þér háskans hik
minn heimsendi – þín svik

glóð- ég finn nú ylurinn fer
úr glóð – ég finn nú ylurinn fer
hér fyrr brann eldur – askan á veggjunum enn er

En það er frá Guðrúnu að segja, að hún hringdi í sífellu, allt til þess að bæjarmenn á Myrká komu út og sóttu hana, því af öllu þessu var hún orðin svo hrædd, að hún þorði hvergi að fara né heldur hætta að hringja, því hún þóttist vita, að hún hefði átt þar við djáknann afturgenginn, þó henni hefði ekki áður komið nein fregn um lát hans, enda gekk hún úr skugga um, að svo hafði verið, er hún náði tali af Myrkármönnum, er sögðu henni upp alla sögu um lát djáknans, og hún aftur þeim af ferðum sínum. Þessa sömu nótt, þegar háttað var og búið að slökkva ljósið, kom djákninn og ásótti Guðrúnu, og voru svo mikil brögð að því, að fólkið varð að fara á fætur, og varð engum svefnsamt þá nótt.

Ljóðið hefur lamið innan höfuð mitt

æ beindu til mín augunum og baða mig í hlýjunni
af brosi þín´að nýju
tendrað´aftur ratljósin svo vafri ég úr villunum
úr vegleysum í faðm þinn

æ, kyrrðu hafrót huga míns sem kuklar æ upp innlögnin
með kvöldkyrrð þinn´og blíðu
kveikjum aftur vinskakapinn, ó, vermdu kaldann sortann þinn
með vonarglæðum mínum

ljóðið hefur lamið innan höfuð mitt
og lífsháskinn minn býr í björginni

tínum saman orðin öll sem tvístruðust í rokinu
og töluð vor´í ofsa
bætum saman setningar og brúum aftur óvætt vað
byggjum eitthvað fallegt

ljóðið hefur lamið innan höfuð mitt
og lífsháskinn minn býr í björginni

Í hálfan mánuð eftir þetta mátti hún aldrei ein vera, og varð að vaka yfir henni hverja nótt. Sumir segja, að presturinn hafi orðið að sitja á rúmstokknum hjá henni og lesa í Saltaranum.
Nú var fenginn galdramaður vestur í Skagafirði. Þegar hann kom, lét hann grafa upp stein einn mikinn fyrir ofan tún og velta heim að skálastafni. Um kvöldið, þegar dimma tók, kemur djákninn og vill inn í bæinn, en galdramaðurinn hneppir hann suður fyrir skálastafn og setur hann þar niður með særingum mikum; veltir hann síðan steininum ofan á,

Frá þínum sjónarhól

hálf blindur af gráti því ég gaf þér auga
og nú gapir augntóftin tóm
öll tónbilin heit sem tengdum við saman
nú tvístrast í frostskemmdum hljóm

ást mín er útsjávar beljandi brim
og brotsjórinn gekk yfir þig
eins og ryðið tærir rammgert járn
svo mun raun þín éta mig

því nú sé ég loks frá þínum sjónarhól sem lífsgaldur mig ljósti
að ljúfan mín þú óttist mig er sem steinn á mínu brjósti
svo hörmulegt að hugsa þig
hræðast mig

berum möl í þessa mýrlendu ást
mokum draumnum ofaní
von minni og framtíð sökkvum í sand
og mér sjálfum – á eftir því

því nú sé ég loks frá þínum sjónarhól sem lífsgaldur mig ljósti
að ljúfan mín þú óttist mig er sem steinn á mínu brjósti
svo hörmulegt að hugsa þig
hræðast mig

og þar á djákninn að hvíla enn í dag. Eftir þetta tók af allan reimleik á Myrká og Guðrún að hressast. Litlu seinna fór hún heim til sín að Bægisá, og er sögn manna, að hún hafi síðan aldrei orðið söm og áður.

Takk

er tjald lokafarsans er fallið – er fold loks umvefur hold
er skuld að fullu er felld og til foldar allt geld utan óra
er flóran vex fetum sex ofar- og feigð er að þanmörkum teygð
er þú vonar að vinátta og ást séu þau verðmæt´er sjást á lífsljóra

þá takk, ó, forsjón mín takk
þú sem útdeilir anda- öllum til handa
takk, ó, lífgjafi takk
í sorgum að sýna – sólstafi þína

er týnist úr æðunum ylur- er önd losar jarðvistarbönd
er allt er upp gert loks veistu hvers vert var að tóra

þá takk, ó, forsjón mín takk
þú sem útdeilir anda- öllum til handa
takk, ó, lífgjafi takk
í sorgum að sýna – sólstafi þína

Hljóðfæraleikur: Tómas Jónsson
Söngur:  Hallgrímur Oddsson
Upplestur: Unnur Birna Björnsdóttir
Upptökustjórn: Halldór Gunnar Pálsson
Myndataka og myndvinnsla: Sveinbjörn Hafsteinsson
Hljóðupptökur: Birgir Jón Birgisson og Halldór Gunnar Pálsson
Hljóðblöndun og hljóðjöfnun: Birgir Jón Birgisson

 

Hönunn myndmáls: Axel F Friðriks

 

Prófarkalestur:  Guðmundur Kr Oddsson

 

Upptökur fóru fram í Sundlauginni og í Skúrnum

 

Þetta hljóðrit hefur fengið styrk frá hljóðritasjóði Rannís.

 

(Djákninn á Myrká er Íslensk þjóðsaga)

 

Þakkir:  Kristófer Ísak Hölluson, Jóhannes Kr Kristjánsson, Víkingur Viðarsson, Guðmundur Kr Oddsson,  Halldór Gunnar Pálsson, Sveinbjörn Hafsteinsson, mamma, pabbi, Tómas Jónsson, Unnur Birna Björnsdóttir, Axel F Friðriks og Annríki.