Aldrei það villtur að ég rati ekki í vandræði
Verri spil
Undir sæng
Í biðröð
Í veruleik
Rétt, bara rangt
Stefnuljós
Aldrei ein
Stundum pirrar þú mig
Íkarus
Júpiter
Það er von
Lög og textar © Hallgrímur Oddsson
1. Verri spil
Að það sé bara hugsun þín sem hamingjunni stjórnar
Að heimslán elti alltaf þann sem öllu til þess fórnar
Að allir finni samhljóminn við Sigurhæðagil
En sumum eru gefin verri spil
Að það batni með því kaupmennskan að varan kosti minna
Að kramútsalan bjarg´öllum frá fátækt allra hinna
Að pöpull offri auðlindum sjálfum sér í vil
En sumum eru gefin verri spil
Að eftir því sem hverjum ber menn borgi er hugmyndin
Að þeir bleyti á sér andlitið sem pissa uppí vindinn
Að þú tapir og þú sigrir líkt þú sáir hérna til
En sumum eru gefin verri spil
Og gullið allir nurla úr sömu námum
Og neyðin flyst á annað tímabil
Á bleikum skýjum líðum enn og úr sælulindum sötra menn lífs yl
En sumum eru gefin verri spil
2. Undir sæng
Undir sæng með þér
Í stundarglasi tíminn stendur rór
Hér strandar loks hinn fallalausi sjór
Hér bíð ég kyrr uns opnast lífs þíns ljór
Undir sæng með þér
Undir sæng með þér
Úti stormsins söngrödd galar grimm
Þar glóa náttblá villuljósin dimm
Nú tærnar þínar tel ég upp í fimm
Undir sæng með þér
Í nótt fer heimsins neyð í burt til Afríku
Í nótt við viljum ekkert vita af slíku
Þótt hljóði hjördyns vindar
Ég hjúfra mig að ylnum því ég er
Undir sæng með þér
Meðan hrafninn hringar nóttin´undir væng
Og hlýjan kitlar myrkrið undir sæng
Æ, kenn mér allt um hrygnuna og hæng
Undir sæng með þér
Í nótt fer heimsins neyð í burt til Afríku
Í nótt við viljum ekkert vita af slíku
Þótt hljóði hjördyns vindar
Ég hjúfra mig að ylnum því ég er
Undir sæng með þér
3. Í biðröð
Sólin rís upp yfir sjóndeildarhring
Og sálarlaust hrúgald úr rekkju á þing
Við þurfum að koma svo mörgu í kring
Klukkan slær
Bílflautur væla og umferðin eykst
Athyglin hefur með viljanum veikst
Stressið af vana í tímaþröng teygst
Tómið hlær
Í biðröð – frá vöggu til værðardags
Biðröð á veraldar umferðarstöð
Og allir í fallegri röð
Pirrandi grætur barnið í bíl
Og bílstjórinn grenjar á móti í stíl
Rífur burt leikfang fyrir vol, fyrir víl
Því var nær
Við gangbraut er gamla konan of sein
Gengur líkt sé hún í heiminum ein
Uns bílstjórinn skiptir á aðra akgrein
Næstum ær
Í biðröð – frá vöggu til værðardags
Biðröð á veraldar umferðarstöð
Og allir í fallegri röð
4. Í veruleik
Ég týnist inn í tóm í geðlaust gap
Í mitt gengishrap
Ég spila, verst, berst og veð í reyk
Ég er í veruleik
Æðar þandar þeyta blóði
Í þreytta vöðva nýja sjóði
Stritum öll uns starfsfjör ferst
Úr iðrum öskra vítisvélar
Viljastyrkinn aflið mélar
Hjartað gráðugt hungrað berst
Ó, vinnuþjarkur
Leiðinn eins og lúsmý bítur
Liggur á uns allt um þrýtur
Sígur úr þér allan þrótt
Með þungum kekki sálin sekkur
Sáran vonarþorstann slekkur
Drekkir sér í dimmri nótt
Ég týnist inn í tóm í geðlaust gap…
Úrskífurnar standa staðar
Stundin hlær og fer ei hraðar
Dauðinn yfir draumum gín
Þú klórar niður neglur þínar
Neyðin étur bjargir sínar
Úr vesæld vefast örlög þín
Ó, vinnuþjarkur
Þú mændir fyrr í morgunroðann
Muldraðir um lífsins hroðann
Óskýrt eitthvað rámri raust
Munt eilíft fram að dánardægri
Dansinn stíga vinstri hægri
Og endurtaka endalaust
Ég týnist inn í tóm í geðlaust gap…
5. Rétt, bara rangt
Mót miklu ranglæti stend
Því mætir hin lofaða staðfasta réttlætiskennd
Guð, boðaði hefnd
Hvar auga fyrir auga og tönn fyrir tönn voru nefnd
Heift, ég finn í æðum mér heift
Og með heilögum tilgang´ er ýmislegt meðalið leyft
Stundum er rétt bara rangt
Stundum er rétt bara rangt
Smár en svo vex mér upp vald
Ég vægi engum og hver fær sitt uppsetta gjald
Bál sem svo byrgir mér sýn
Nú bilast mér vit og horfin er mannúðin mín
Afl er nú þungað af þrá
Mig þyrstir í rétt til að dæma svo rangt sem ég má
Stundum er rétt bara rangt
Stundum er rétt bara rangt
Þig dæmi á þann stað þar sem ýrist úr veggjunum illt
Þar sem óttinn hræðist sig sjálfan og þögnin er tryllt
Stundum er rétt bara rangt
Stundum er rétt bara rangt
6. Í hlekkjum
Beygi oft af stefnu úr stað
Stundum er sem dúsi í völundarhúsi
Og engin von um útþræði
Á leið um úthaf veit þó vel að
Ég er aldrei það villtur að ég rat´ekk´í vandræði
Í hlekkjum innri hugsunar
Fangi eigin hegðunar
Hin sjálfstýrða vél vaninn er mér
Vakinn er sem sofinn, nánast alltaf dofinn
Horfið er mér frumkvæði
Örlögum fel hvert ævi mín fer
Ég er aldrei það villtur að ég rat´ekk´í vandræði
Í hlekkjum innri hugsunar
Fangi eigin hegðunar
Sortinn djúpt í sálinni
Syngur flauelsmjúkt
Um ljós
Um minningu
Í djúpinu í dulvitund
Dreymir mig um leið
Sem liggur
Burt
Í hlekkjum innri hugsunar
Fangi eigin hegðunar
7. Stefnuljós
Of innarlega próflaus í pínulitlum hring
Pæl´í hvað er orsök og hvað er afleiðing
Fæ ég svör hjá Friedrich Hegel eða Søren Kierkegaard
Hjá sjálfum Friedrich Nietzsche?
Nei, ekkert virðist sannað
Við störum hvert á annað
Á vegi lífsins kannski bannað
Er þú finnur rétta braut
Að gefa stefnuljós
Þau virðast óþörf
Stefnuljós
Ef veist hvert þú ferð
Þeir stærri svína á mig, það er stórra manna glens
Að stríða hinum minni og gefa aldrei séns
Á bæn sný mér til Mekka en það breytist ekki neitt
Bið til Krists á himnum
Á hringtorgi alheimsins
Held á vit lífsseimsins
Villtur á útgeimsins braut
Og engin stefnuljós
Þau virðast óþörf
Stefnuljós
Ef veist hvert þú ferð
Bókin um veginn, vísdómurinn
Virðist fara í kringum þetta mein
Öll hámenning er hugrenning ein
Engin vísbending engin ljóssending ekki nein
Stefnuljós
Þau virðast óþörf
Stefnuljós
Þú veist hvert þú ferð
8. Aldrei ein
Þú fyllir upp tómið, þú tendrar upp blóðið
Og tryllist ef þögnin étur upp ljóðið
Sem þú yrkir í hljóðið því ógn er í þögninni nefnd
Í einsemd þú brennur svo hræðistu brímann
Þín brynja er græðgin, allt umstang og víman
Og þú drepur tímann en tímans er hin sæta hefnd
Aldrei ein – önnum kæfð á flótta
Aldrei ein í næði
Aldrei ein – einstök fyllumst ótta
Aldrei ein
Þú vilt týna áttum í bruðli, í býsnum
Búksorgir sefa í jarðbundnum fýsnum
Og toppur á ísnum þú vilt verða fullur af gnægð
Við hégóma lífsins þú fagnandi hneggjar
Hungraður teygar þú lífsvökvans dreggjar
Og fíknin þig eggjar og hún er aldrei fullnægð
Aldrei ein…
Þú kveikir öll ljósin því í myrkri býr mæða
Svo margt sem er ósagt og þú vilt ekki ræða
Og öll svörin hræða við spurnum sem sálin vill fá
Með fang fullt af engu þú tómið út treður
Á tilvistarvandann þú drasli upp hleður
Því sama hvað skeður þú vilt engin vandamál sjá
Aldrei ein…
9. Stundum pirrar þú mig
Stundum pirrar þú mig og ég veit að þú meinar vel
Vilt hjálpa en hvort heilahvel
Er sem boðefna hrærivél
Stundum pirrar þú mig þá hvass og hálf hvimpinn er
Og hvað sem þú segir fer
Í skapið og stríðir mér
Stundum pirrar þú mig og hin ískalda þögn um það
Þér finnst eitthvað vera að
En þú vilt ekki segja hvað
En þú hjúfrar að mér værðarvoðum heimskunnar
Því váin sýnist fjær er ég gleymi fleiru
Og þú prjónar á mig lopahúfu lyginnar
Því lífssannleikurinn krafsar hart í eyru
Stundum pirrar þú mig og allt sem er sam-mannlegt
Síngirni og annað þekkt
Svo ég iðrast af erfðasekt
Stundum pirrar þú mig líkt og heimska hvers menntaðs manns
Hin meinta dómharka hans
Og ást hans til boðs og banns
Æ, hjúfrað´að mér værðarvoðum heimskunnar…
En stundum pirrar þú mig…
Æ, hjúfrað´að mér værðarvoðum heimskunnar…
En mest pirrar þú mig… …þegar ég pirra þig
10. Íkarus
Sárt bítur sekt og tungu er tregt
Að tala um þesslegt er menn heyra
Með hvelli ég skell á mitt skynsemissvell
En skil er ég fell alltaf meira
En ég krýp við sjálfsmynd líkt öll mannkind í synd
Með Narcissus í lind vil renna
Með Íkarus vil á flug funans til
Og sem fiðrildi í yl vil brenna
Ég er efsta stig alls sem þróaði þig
Því er sóað í mig og ég vex vel
En önd mín er ryk, minn búkur kjöt, bein og spik
Og bókast sem strik í excel
En ég krýp við sjálfsmynd líkt öll mannkind í synd
Með Narcissus í lind vil renna
Með Íkarus vil á flug funans til
Og sem fiðrildi í yl vil brenna
Ég krýp við sjálfsmynd líkt öll mannkind í synd
Með Narcissus í lind vil renna
Með Íkarus vil á flug funans til
Og sem fiðrildi í yl vil brenna
Með Íkarus vil ég brenna í yl
11. Júpiter
Hnígur sól
Að himins brún
Nú húmgast tún
Og tárast
Ymur brim
Og strýkur strönd
Nú stefnir önd
Til tungls
Sígur von
Sem dýrðir dró
Deyr í sjó
Sem litast
Glóða blóð
Dimmrautt dreyra ljóð
Og dauða hljóð
Er nótt
Júpiter sem jú býr inní mér
Jaðarinn heim til sín dregur
Í kjarnann fell í mínum miklahvell
Á morgun skal allt verða nýtt
Tindrar nið
Og tunglskinið
Tendrar frið
Í sálu
Hylur yl
Láreyk hefur til
Hjúfurs dularþil
Á jörð
Júpiter sem jú býr inní mér
Jaðarinn heim til sín dregur
Í kjarnann fell í mínum miklahvell
Á morgun skal allt verða nýtt
Ég fer en er um kjurt
Þó fer – því héðan liggja allar leiðir burt
12. Það er von
Trúin þín er ljósið þitt, sannleikur og sverð
En sverðin er´öll tvíeggja að gerð
Trú er brími mannkynsins og bragur þess á leið
En brennir stundum allt og skapar neyð
En það er von
Það er von, von
Um betri tíð
Efi þinn er festuleysi frelsisleitandans
Allt færist undan köldum rökum hans
Efinn hann er illfygli, dreyrug drauma vá
En draumar fljúga ef þeir aðeins fá
Von, von, von
Um betri tíð
Lífið það er hryllingur, hungursneyð og stríð
En það er líka hamingj´alla tíð
Þó lífið sé of drungalegt fyrir dóttur þína og son
Finnst dýrmætið í brjósti þeirra – von
Og það er von, von, von
Um betri tíð
Þú ert von
Um betri tíð
Þakkir: Leifur Jónsson, Pétur Sigurðsson, Jón Indriðason, Sigurþór Kristjánsson, Halldór Hólm Kristjánsson, Hafþór Karlsson, Eysteinn Eysteinsson, Kristófer Ísak, Mamma, Pabbi,
Sérstakar þakkir: Gustav Smári Guðmundsson
Lög og textar: © Hallgrímur Oddsson
Tónlistarmenn:
Halldór Gunnar Pálsson (Kassagítar/Rafgítar/Hljómborð). Valdimar Olgeirsson (Kontrabassi). Magnús Örn Magnússon (Trommur/Slagverk). Leifur Jónsson (Píanó). Hallgrímur Oddsson (Söngur)
Upptökustjórn: Halldór Gunnar Pálsson
Upptökumenn: Birgir Jón Birgisson (Sundlauginn), Ásmundur Jóhannsson (Paradís) og Halldór Gunnar Pálsson (Skrifstofan)
Hljóðblöndun: Birgir Jón Birgisson
Hljóðjöfnun: Finnur Hákonarson
Ljósmynd: Gýgja Einarsdóttir
Hönnun og umbrot: Helgi G Thoroddsen
Prófarkalestur: Tómas Ragnarsson